Þýska póstfyrirtækið Deutsche Post, sem er eigandi DHL, hyggst nú hagræða til í starfsemi DHL í Bandaríkjunum en DHL hefur tapað miklu undanfarið.

Áform um að skera niður í starfseminni vestanhafs setja um 40.000 starfsmenn hjá DHL þar í hættu um að missa vinnuna.

Reuters fréttaveitan segir frá því á heimasíðu sinni að Deutsche Post hyggist segja upp 20.000 starfsmönnum fyrirtækisins í Bandaríkjunum og álíka mörgum hjá dótturfélögum sínum það ytra.

í frétt Reuters segir að forsvarsmenn Deutsche Post neiti að tjá sig um málið og að fyrirtækið muni tilkynna um afkomu þriðja ársfjórðungs á morgun, mánudag.

Í maí á þessu ári tilkynnti Deutsche Post um endurskipulagningu á rekstri félagsins í Bandaríkjunum sem nemur um 2 milljörðum bandaríkjadala. Áætlað tap á rekstrinum í ár er 1,3 milljarðar bandaríkjadala fyrir skatta.