Deutsche Postbank þurfti að afskrifa 31 milljón evra á þriðja fjórðungi vegna hruns íslensku bankanna og mun félagið ekki borga neinn arð til hluthafa á þessu ári.

Dow Jones-fréttastofan hefur þetta eftir Wolfgang Klein, forstjóra bankans, en Deutsche Postbank tapaði 446 milljónum evra á fjórðungnum og hefur jafnframt tilkynnt um að eigið fé bankans verði styrkt um einn milljarð evra á þessum fjórðungi.

Forstjórinn býst við erfiðu rekstrarumhverfi á næsta ári sökum neikvæðra áhrifa lánsfjárkreppunnar á raunhagkerfi.

Detusche Post á meirihluta í Deutsche Postbank á meðan að þýski þróunarbankinn á 31% í Deutsche Post.