Deutsche Bank, sem er stærsti einstaki lánveitandi Donald Trump Bandaríkjaforseta og fjármála- og fasteignaveldis hans, er sagt hafa snúið við honum baki eftir árásina á þinghús Bandaríkjanna.

Trump Organization skuldar Deutsche bank 340 milljónir dala, eða andvirði um 43,7 milljarða íslenskra króna, en nú er bankinn sagður í The Times ekki ætla að halda áfram viðskiptum við hann.

Lánin eru til hótela í Washington og Chicago auk golfvallar í Miami. Á dögunum ákvað PGA mótaröðin að hætta við að nota golfvöll forsetans í New Jersey á næsta ári. Jafnframt mun R&A mótaröðin í Bretlandi yfirgefa golfvöll Trump í Turnberry í Skotlandi.

Skrýtnar samsæriskenningar á sveimi

Ástæðan er eins og áður segir að fyrir helgi þurfti lögregla þinghússins að lúta í lægra haldi gegn æsingarmönnum sem safnast höfðu saman við þinghúsið og ruddust inn í það, en í kjölfarið þurfti að rýma þinghúsið um tíma.

Þetta gerðist sama dag og forsetinn hafði boðað til mótmælafundar vegna þess að þá átti að, og tókst eftir töf, að staðfesta úrslit forsetakosninganna sem hann segir enn að hafi verið höfð af honum með svindli.

Fjöldi stuðningsmanna Trump virðist enn trúa því að einhver fótur sé fyrir ásökunum um svindl þó bæði dómstólar og eftirlitsmenn hafi úrskurðað að svo hafi ekki verið, en til að mynda hefur USA Today svarað samsæriskenningum um afskipti ítalskra og þýskra aðila að kosningunum sem skotið hafa upp og verið deilt í hundruð þúsunda tali á samfélagsmiðlum.

Eftir atburðina í þinghúsinu lokuðu helstu tæknifyrirtæki á samfélagsmiðla Trump þar sem hann er sagður hafa æst upp í hópnum og ekki gert nóg þegar hann bað stuðningsmenn sína um að fara heim í myndbandi sem hann sendi frá sér í kjölfar árásarinnar.

Annað fjármálafyrirtæki, sem hafa verið í viðskiptum við forsetann og fjármálaveldi hans, Signature Bank, hefur hvatt hann til að segja strax af sér sem fyrirtækið segir vera til hagsbóta fyrir bandarísku þjóðina.

Hafnar æðstu heiðursorðunni úr hendi Trump

Joe Biden sem sigraði forsetakosningarnar í nóvember síðastliðnum mun taka við embættinu í næstu viku, miðvikudaginn 20. janúar, en Trump hefur sagt að valdatakan muni fara fram án vandkvæða þó hann hafi ekki minnst á Biden með nafni í yfirlýsingu sinni.

Trump hugðist nota síðustu daga sína í embætti meðal annars til að heiðra ýmsa íþróttamenn, en meðal þeirra sem hann ætlaði að veita Frelsisorðu Bandaríkjaforseta, sem er sú hæsta sem almennum borgurum getur hlotnast hefur þjálfari NFL liðs hafnað því að taka við orðunni vegna atburðanna.

Um er að ræða Bill Belichick, þjálfara New England Patriots í íþróttagreininni sem kölluð hefur verið bandarískur fótbolta (eða ruðningur), en hann hefur löngum verið vinur Donald Trump, líkt og eigendur félagsins. Þeir hafa þó löngum gefið til frjálslyndra málefna og frambjóðenda demókrata að því er segir í umfjöllun New York Times um málið.

Tengiliður Trump við bankann hættur

Deutsche Bank hefur ekki gefið neitt út um viðskipti sín við Trump, en yfirmaður bankans í Bandaríkjunum, Christiana Riley, hefur fordæmt upplausnina sem varð í höfuðborginni Washington.

„Ofbeldi á ekki að hafa neitt hlutverk í samfélagi okkar og þau atvik sem við sáum eru allri þjóðinni til skammar,“ skrifaði Riley á LinkedIn síðu sína og kallaði daginn svartann fyrir Bandaríkin.

„Við erum stolt af stjórnarskrá okkar og stöndum með þeim sem vilja varðveita hana til að tryggja að vilji fólksins fái fram að ganga og friðsamlegt valdaframsal eigi sér stað. Það er von mín að þessir hroðalegu atburðir muni treysta stuðninginn við þau gildi sem þjóðin okkar var byggð á.“

Deustsce Bank hefur þurft að sæta gagnrýni vegna viðskipta sinna við forsetann síðustu ár, en fyrir jól kom í ljós að Rosemary Vrablic, tengiliður Trump hjá bankanum, myndi hætta störfum um áramótin.