Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um að stöðva innflutning íþróttafélags á notaðri Deutz Fahr Argoplus 70 dráttarvél. Að mati stjórnvaldanna var ekki útilokað að vélin hefði getað borið dýrasjúkdóma með sér hingað til lands.

Atvik málsins eru þau að í júlí 2017 keypti félagið umrædda dráttarvél en hún hafði verið notuð við umhirðu knattspyrnuvallar í Danmörku og ekki nýtt í önnur störf. Í október sama ár var hún flutt hingað til lands og fjórum mánuðum síðar var tilkynning um komu hennar send MAST. Ekki var unnt að tollafgreiða vélina eða hleypa henni inn í landið fyrr en sú úttekt hafði farið fram.

Dýralæknir frá MAST mætti til Þorlákshafnar í febrúar 2018 til að gera úttekt á vélinni. Þá kom í ljós að henni fylgdi ekki sótthreinsivottorð og því þyrfti að hreinsa hana áður en hægt væri að taka hana til starfa. Af þessu tilefni sendi eigandi vélarinnar MAST vottorð um að hún hefði eingöngu verið brúkuð á fótboltavelli og að Samgöngustofu hefði áður verið gert viðvart.

Mánuði síðar mætti dýralæknirinn aftur til að skoða vélina en þá var búið að sótthreinsa hana í bak og fyrir. Við þá skoðun kom í ljós að vélin hafði ryðgað á stöku stað. Það þótti ekki nægilega gott en það var mat dýralæknisins að „ógerlegt væri að þrífa og sótthreinsa svo illa farna vél með fullnægjandi hætti“. Af þeim sökum boðaði stofnunin að hún hygðist stöðva innflutning vélarinnar.

Vélin bara notuð á fótboltavelli

Áður en til þess kom reyndi eigandi vélarinnar að sannfæra stofnunina um að slíkt væri óþarfi. Vélin hefði aldrei verið brúkuð í landbúnaðarstörfum og yrði ekki notuð í slík störf hér á landi. Því hefði MAST ekkert valdsvið í málinu. Þá stæðist það enga skoðun að synja um innflutning á þeim grunni að dráttarvélin væri ryðguð enda hefðu ryðgaðir bílar og tæki verið flutt hingað til lands um langt árabil. Það dugði ekki til að tjónka við stofnuninni og innflutningurinn stöðvaður.

Sú ákvörðun var kærð til ráðuneytisins. Var byggt á því að umrædd vél hefði aldrei verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang en lögum samkvæmt er óheimilt að flytja hingað til lands landbúnaðartæki- og áhöld sem hafi komist í snertingu við dýr á erlendri grund. Engin rök stæðu til að meðhöndla vélina á annan hátt en notaðan bíl.

MAST byggði aftur á móti á því að þarna væri dráttarvél á ferð og slíkar vélar heyrðu undir valdsvið stofnunarinnar. Markmið laganna væri að tryggja að dýrasjúkdómar bærust ekki hingað til lands og því yrði stofnunin að tryggja að landbúnaðarvélar- og áhöld fengju rétta meðferð áður en þau yrðu brúkuð hér á landi. Yfirlýsingar vallarstjóra í Borgundarhólmi, um að hún hefði bara verið notuð á knattspyrnuvelli, dygðu ekki til.

„Komi þá bæði til að regluverkið kveði á um að dráttarvélar að þessu tagi skuli sótthreinsaðar fyrir innflutning og ekki síður að stofnunin geti með engum hætti sannreynt að dráttarvélin hafi aldrei verið notuð við landbúnaðarstarfsemi. Ekki liggi fyrir nein sönnun um að dráttarvélin hafi ekki verið notuð í landbúnaðarstarfsemi og miðað við notagildi dráttarvélarinnar og markaðssetningu hennar sé ekki hægt að fullyrða að hún hafi aldrei komið í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang,“ segir í rökum MAST. Vélin hafi enn verið skítug eftir þrif og því ekki annað talið tækt en að synja um innflutning.

Of mikilvægir hagsmunir í húfi

Í úrskurði ráðuneytisins segir að hagsmunirnir sem í húfi eru séu of miklir til að unnt sé að taka einhverja sénsa. Ekki væri unnt að byggja á yfirlýsingum seljanda því með því móti væri grundvellinum fyrir eftirliti sem þessu eytt.

„Ekki dugar að ólíklegt sé að smitefni berist með umræddum hlutum. Hér er líka rétt að hafa í huga að um er að ræða undantekningu frá meginreglu sem skýra ber þröngt skv. almennum lögskýringasjónarmiðum. Því er það svo að ef framangreint skilyrði er ekki uppfyllt t.d. ef hreinsun er ábótavant eða ekki möguleg eins og í því tilviki sem hér um ræðir, skal stofnunin stöðva innflutninginn. Enda verður í slíkum tilvikum að álykta að ekki þyki sannað að smitefni sem valda dýrasjúkdómum geti ekki borist til landsins við influtninginn,“ segir í úrskurðinum en þar var fallist á rök MAST.

Kæra málsins er dagsett á vormánuðum ársins 2018 og lágu öll gögn fyrir á síðasta ársfjórðungi þess árs. Úrskurður ráðuneytisins var síðan birtur í dag og en hann var kveðinn upp 5. febrúar þessa árs. Því tók meðferð málsins vel á þriðja ár. Baðst ráðuneytið afsökunar á því hve málið hafði dregist innan veggja þess.