Fransk-belgíski bankinn Dexia, sem hefur sérhæft sig í lánum til sveitarfélaga og opinberra aðila, rambar á barni gjaldþrots og í dag mun belgíska ríkisstjórnin funda um hvernig vernda má bankann fyrir gjaldþroti. Í gær tilkynnti stjórn bankans að til greina kæmi að skipta bankanum upp til þess að tryggja áframhaldandi starfsemi arðbærra rekstrareininga, svo sem eignastýringar bankans og tyrkneska smásölulánveitandans Denizbank. Frá þessu greinir breska blaðið Financial TImes.

Vandamál Dexia eru síður en svo ný af nálinni og fari svo að stjórnvöld þurfi að leggja bankanum til fé er það í annað skipti sem það gerist en í kjölfar falls Lehman Brothers haustið 2008 þurftu stjórnvöld í Belgíu, Frakklandi og Lúxemborg að leggja bankanum til 6,4 milljarða evra.

Dexia bar á góma í vangaveltum Óðins í Viðskiptablaðinu hinn 5. september sl. en á meðal lánþega bankans er Orkuveita Reykjavíkur. Kom fram að raunverulegt eiginfjárhlutfall Dexia er 1,2%. Bankinn sérhæfir sig í lánveitingum til opinberra aðila eins og til dæmis sveitarfélaga.

Í apríl 2008 lánaði Dexia OR 100 milljónir evra á 48 punkta álagi á Libor, eða um það bil fimmtungi þess álags sem krafist var af ríkisskuldabréfum.