DHL mun breyta verðskrám sínum frá og með 15. maí næstkomandi. Er bæði um að ræða lækkanir og hækkanir vegna mismunandi aðstæðna á markaðssvæðum félagsins. Einnig verður frá sama tíma innleitt sérstakt gengisaðlögunargjald vegna mikilla breytinga á gengi krónunnar undanfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DHL.

Þar sem flutningar frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Rússlandi hafa aukist til muna á undanförnum árum hefur DHL tekist að tryggja lægra verð á flutningi frá þessum löndum, segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að þetta þýði allt að helmingslækkun innflutningskostnaðar frá þessum löndum. Þá segir að DHL geti nú boðið lækkun flutningskostnaðar inn- og útflutnings til og frá Bandaríkjunum. Það skýrist af því að nú fara sendingar til og frá Bandaríkjunum í gegnum flugvöllinn í East Midlands í Englandi í stað Brussel í Belgíu áður.

Í tilkynningu DHL kemur fram að innlendur kostnaður hafi hækkað undanfarin misseri sem hefur í för með sér óhjákvæmilegar hækkanir á gjaldskrám. Að auki kemur fram að kostnaður erlendis hefur aukist umtalsvert en um helmingur flutningskostnaðar DHL er í evrum.

„Um áramótin síðustu stóð evran í 91 krónu en hefur hækkað um allt að 30% undanfarnar vikur og daga. Í ljósi þess er félagið knúið til að taka upp sérstakt gengisaðlögunargjald (e. Currency Adjustment Factor), sem leggst ofan á flutningskostnað,“ segir í tilkynningunni.

Gengisaðlögunargjaldið tekur gildi þegar ein evra stendur í 100 krónum og er miðað við meðaltal miðgengis undangengins mánaðar, skv. Seðalbanka Íslands. Þegar meðaltalsmiðgengi mánaðar fer niður í 100 krónur fellur aukagjaldið niður.

Sem fyrr segir tekur aukagjaldið gildi 15. maí nk. og verður þá miðað við miðgengi aprílmánaðar. Mun það verða birt á heimasíðu DHL og verður uppfært fyrsta dag hvers mánaðar.