Dubai International Capital (DIC), fjárfestingarsjóður í eigu ríkisstjórnarinnar í Dubai, hefur varað Tom Hicks, annan af eigendum enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, að tilboð upp á 400 milljónir punda í félagið verði ekki hækkað. Hicks George Gillett, meðeigandinn í Liverpool, fengu hvor um sig tilboð upp á 200 milljónir punda í 50% hlut í félaginu. Hvorugur getur selt nema báðir séu því samþykkir.

Fulltrúar frá DIC áttu fund með lögfræðingum Gillett í gær og vonast til þess að náist samningar milli þeirra verði það til þess að setja þrýsting á Hicks að gera slíkt hið sama. Þetta hefði í för með sér 25 milljóna punda hagnað á hvorn á fjárfestingu sem þeir hafa átt í 13 mánuði. Hicks hafnaði tilboðinu snimmhendis en Gillett er talinn vilja þrýsta á DIC að hækka tilboðið.