Gert er ráð fyrir að leikarinn Leonardo DiCaprio muni framleiða og leika aðalhlutverkið í kvikmynd um einn helsta frumkvöðul í tölvuheiminum, Nolan Bushnell, sem stofnaði Atari-tölvufyrirtækið árið 1972.

Kvikmyndaframleiðandinn Paramount hefur keypt réttinn að kvikmyndahandriti um líf Bushnells og hyggst framleiðslufélag í eigu DiCaprio, Appian Way, koma því á hvíta tjaldið, að því er tímaritið Hollywood Reporter greinir frá.

Varð risi á sviði tölvuleikja

Bushnell vann sem viðgerðarmaður spilakassa á meðan hann þróaði tölvuleik sem kallaðist Computer Science. Leikur sá naut engrar hylli en öðru máli gegndi um leikinn Pong, sem naut gríðarlegra vinsælda.

Warner-fjölmiðlarisinn keypti Atari á 28 milljónir dollara á þávirði í lok áttunda áratugarins og tókst fyrirtækinu að verða risi á tölvuleikjamarkaði.

Adam var þó ekki lengi í Paradís því svo snemma sem 1984 var sigurganga fyrirtækisins á enda.

Bushnell hefur seinustu ár stýrt pizzakeðjunni Chuck E. Cheese's Pizza-Time, auk þess sem fjárfestingarfélag í hans eigu hefur lagt fjármuni í Etak, félag sem var í fararbroddi í hönnum stafrænna landakorta.