Diðrik Örn Gunnarsson hefur gengið til liðs við Zenter sem verkefnastjóri og sérfræðingur í neytendahegðun og upplifunarstjórnun. Síðastliðin átta ár hefur Diðrik búið í Noregi þar sem hann starfaði m.a. sem ráðgjafi fyrir Nýsköpunarráð Noregs (Innovation Norge) og var forsvarsmaður stórra verkefna Evrópusambandsins.

Einnig kenndi hann markaðsfræði við Háskólann í Tromsö (UIT) ásamt því að skrifa doktorsritgerð sína þar um neytendahegðun. Diðrik hefur birt fjölda af bæði alþjóðlegum vísinda- og ráðstefnugreinum í gegnum tíðina sem hafa verið gefnar út í virtum vísindaritum.

Diðrik hefur unnið náið með norskum fyrirtækjum á smásölumarkaði og má þar á meðal nefna Co-op sem er stærsti smásölurisinn í Noregi. Einnig starfar Diðrik með innlendum og erlendum aðilum í samstarfi við The Engine sem sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu.

Diðrik hefur einnig unnið með íslenskum sem og erlendum aðilum við að styrkja og efla vöru- og markaðsstefnu fyrirtækja á mismunandi mörkuðum. Diðrik er með BSc-gráðu í alþjóðlegri markaðsfræði og MSc-gráðu í viðskiptamenningu og vörustjórnun.

„Við finnum aukna eftirspurn hjá okkar viðskiptavinum að einblína meira á upplifunarstjórnun til að ná aukinni aðgreiningu og samkeppnisforskoti í harðnandi samkeppni og því er Diðrik kærkomin viðbót í þjónustuna hjá okkur.“ segir Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Zenter.

Zenter er þekkingar-, samskipta- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu á sviði rannsókna auk ráðgjafar í stjórnun markaðs-, mannauðs-, sölu- og þjónustumála.