Viðskiptablað Die Zeit, sem er mest lesna vikublað Þýskalands, telur Ísland ákjósanlegan stað fyrir gagnaversiðnað, samkvæmt fréttaskýringu sem birtist í blaðinu í síðustu viku.

Því er spáð í fréttaskýringunni að áhugi muni fara vaxandi hjá stjórnendum gagnavera að færa viðskipti sín til Íslands. Er því haldið fram að Þýskaland sé þróunarríki í samanburði við Ísland og Íslendingar hafi lengi framkvæmt það sem Þýskaland reynir nú að gera í tengslum við gagnaver.

Þá kemur fram að á Íslandi eru fyrir hendi allir mikilvægustu þættirnir sem þurfi til að reka gagnaver. Segir einnig að gagnaöryggi sé eitt mikilvægasta mál fyrirtækja í dag og Ísland hafi mögulega sérstöðu hvað það varðar. Samkeppnishæft orkuverð lokki stórfyrirtæki á borð við BMW til Íslands, sem er einn helsti viðskiptavinur gagnaversins Verne Global.