Veitingastaðurinn Dill braut blað í íslenskri veitingasögu árið 2017 þegar hann, fyrstur íslenskra veitingastaða, hlaut Michelin stjörnu. Staðurinn, sem var til húsa við Hverfisgötu 12, missti stjörnuna í fyrra og fljótlega í kjölfarið var honum lokað. Staðurinn var hins vegar opnaður á ný síðasta haust og er í dag til húsa á á annarri hæð í Kjörgarði við Laugaveg 59.

Á Michelin Nordic -hátíðinni, sem haldin var í Þrándheimi í Noregi á mánudaginn, var tilkynnt að Dill hefði endurheimt stjörnuna. Verður þetta að teljast einstakt afrek hjá Gunnari Karli Gíslasyni matreiðslumeistara, sem jafnframt er einn af eigendum Dill, því uppfylla þarf mjög strangar kröfur til að hljóta Michelin stjörnu. Gunnar Karl er tiltölulega nýfluttur til Íslands eftir að hafa búið í New York í nokkur ár, þar sem hann stýrði veitingastaðnum Agern , sem einnig er með Michelin stjörnu.

Moss Restaurant nálgast stjörnu

Michelin verðlaunar ekki einungis staði með því að skreyta þá stjörnum heldur eru ýmsir undirflokkar. Einn þessara flokka er hinn svokallaði „ Bib Gourmand “, en þann stimpil hljóta veitingahús sem selja fyrirtaks mat, á hóflegu verði. Veitingahús geta einnig hlotið skeiðar og gaffla, sem eiga að merkja eiginleika veitingahúsanna. Eitt par af skeið og gaffal merkir til að mynda þægileg veitingahús. Fimm pör af skeiðum og göfflum, merkja lúxus.

Einnig eru til merkingar sem sýna staði sem eru með matseðla sem taldir eru vera á ákveðnu verðbili. Auk þess eru til merkingar fyrir staði sem eru með fallegt útsýni eða áhugaverða vínlista .

Auk Dill fengu fimm aðrir íslenskir veitingastaðir viðurkenningu frá Michelin . Fyrstan skal telja Moss Restaurant , sem er veitingastaður á Blue Lagoon Retreat , fimm stjörnu hóteli við Bláa lónið. Moss fær þrjú pör af skeiðum og göfflum og hlýtur því að vera ansi nálægt því að fá fyrstu Michelin stjörnuna. Veitingastaðurinn Sümac við Laugaveg 28 fær tvö pör af skeiðum og göflum, sem og Óx, sem er ellefu sæta veitingastaður í sama húsnæði. Þá fær Grillið á Hótel sögu einnig tvö pör. Veitingastaðurinn Matur og drykkur við Grandagarð 2 fær eitt par.

Veitingastaðurinn Skál, sem er til húsa í Hlemmi mathöll, missti hins vegar Bib Gourmand -stimpilinn, sem hann fékk fyrir ári.

Þess má geta að færeyski veitingastaðurinn Koks, sem stendur við Leynavatn, hefur slegið í gegn hjá matgæðingunum á síðustu árum. Veitingastaðurinn, sem er um 25 kílómetra frá Þórshöfn, skartar tveimur Michelin stjörnun en þar ræður matreiðslumeistarinn Poul Andrias Ziska ríkjum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .