Á haustþingi er áformað að tvöfalda kolefnisgjald, sem skilar ríkissjóði fjórum milljörðum, en undanþágur á virðisaukaskatti á vistvæna bíla lækka tekjur um tvo milljarða. Fjármálaráðherra benti á að undanþágan verður framlengd um þrjú ár en ekki eitt eins og verið hefur til að auðvelda áætlanagerð fram í tímann þegar kaup á vistvænum bílum eru undir. Undanþágan hefur verið í gildi frá árinu 2013.

Þá er gert ráð fyrir jöfnun á olíu- og bensíngjaldi, sem skilar 1,7 milljörðum. Þetta er gert til að jafna verð á bensíni og dísilolíu, sem hækka því um 8 og 18 krónur. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði þetta meðal annars gert vegna þess sem í ljós hefði komið um skaðsemi dísilolíu á umhverfið, umfram það sem áður var talið. Þá er reiknað með að fyrri kerfisbreytingar skili meiri tekjum, um 2,6 milljörðum, en áætlað var.

Benedikt nefndi í því samhengi til tekna afnám afsláttar á vörugjöldum bílaleigubíla og áðurnefnda hækkun gistináttagjalds, en á móti komi samnýting skattþrepa samskattaðra einstaklinga og stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.