Um næstu mánaðamót ganga í gildi lög hér á landi um olíugjald í stað þungaskatts á dísilolíu. Skömmu fyrir þinglok var samþykkt breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Fól breytingin í sér að fyrirhugað 45 krónu gjald er lækkað tímabundið frá 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 um 4 kr., eða í 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Olíufélögin hafa ekki gefið út hvað olíuverðið verði um mánaðamótin. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að líklegt er að gjaldskyld dísilolía með fullri þjónustu geti þá kostað allt að 116 krónur lítrinn.

Með virðisaukaskatti má gera ráð fyrir að útsöluverð dísilolíu verði samt 5 kr. lægra en verið hefði miðað við 45 krónu gjaldið. Markmiðið með þessari tímabundnu lækkun er að vega upp á móti hækkun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu á undanförnum mánuðum, en verð á dísilolíu er nú gríðarlega hátt. Síðan frumvarpið var samþykkt hefur heimsmarkaðsverð á olíu haldið áfram að hækka. Á markaði í London í gærmorgun var verð á framvirkum samningum á olíu til afgreiðslu í ágúst skráð á 56,58 dollara tunnan á IPE og 58,09 dollarar á tunnu á NIMEX.

Sem dæmi um líklegt verð á dísilolíu með fullri þjónustu um mánaðamótin, þá var verðið í gærmorgun hjá Olíufélaginu Esso yfirleitt á 62,10 krónur lítrinn en þó aðeins mismunandi eftir stöðvum. Ef tekið er 41 króna olíugjald og það margfaldað með 24,5% virðisaukaskatti (x1,245), þá gerir það 51 krónu. Samtals er verðið þá komið í 113,14 krónur.

Olíufélögin telja sig auk þess þurfa að leggja þar ofan á gjald vegna kostnaðar við litun á gjaldfrírri olíu. Er talað að gjaldið geti numið á bilinu 1,50 til 2 krónur. Miðað við þetta þá gæti olíuverð með fullri þjónustu á bensínstöð hæglega orðið tæpar 116 krónur miðað við olíuverðið í gær, eða 115,63 krónur hjá Esso.

Olíuverðið yrði þá talsvert hærra en bensínverð, en verð á 95 oktana bensíni með fullri þjónustu hjá Esso var í gær 113,70 krónur. Sjálfsafgreiðsluverð var þar lægst 108,70 krónur.

Sjálfsafgreiðsluverð á dísilolíu var aftur á móti 57,10 krónur hjá Esso í gær. Eftir breytinguna um mánaðamótin gæti sjálfsafgreiðsluverð á dísilolíu hjá félaginu því hugsanlega orðið 110,63 krónur lítrinn.

Svipað verð var hjá öðrum olíufélögum. Hjá Skeljungi (Shell) var dísilolíuverðið með fullri þjónustu í gær 62,20 krónur en 56,60 í sjálfsafgreiðslu (gæti orðið 110,13 krónur um mánaðamótin). Verð á 95 oktana bensíni hjá Skeljungi var þá með fullri þjónustu 114,10 krónur en 108,70 krónur í sjálfsafgreiðslu.

Hjá Olís var dísilolíuverðið með fullri þjónustu í gær 62,10 krónur, en sjálfsafgreiðsluverð 57,10 krónur lítrinn (gæti orðið 110,63 krónur lítrinn um mánaðamótin). Þá var 95 oktana bensín með fullri þjónustu þar á 114,20 krónur lítrinn. og 95 oktana bensín var þar í sjálfsafgreiðslu á 109,20 krónur.

Hjá Atlantsolíu var dísilolíuverðið í sjálfsafgreiðslu 55,70 krónur (gæti orðið 109,23 krónur) en verð á 95 oktana bensíni var þar í gær 107,90 krónur lítrinn.

ÓB var yfirleitt með olíuverðið á 55,70 krónur lítrann hjá flestum sínum stöðvum í sjálfsafgreiðslu í gær. Lítrinn hjá ÓB gæti því hugsanlega farið í 109,23 krónur um mánaðamótin. Þar var 95 oktana bensín á 107,90 krónur lítrinn í gær.

dOrkan var með lægst verð á dísilolíu í sjálfsafgreiðslu í gær, eða 53,60 krónur lítrann, Þá var 95 oktana bensín á 107,80 krónur lítrinn. Miðað við þessi verð gæti hugsanlegt verð á dísilolíu frá Orkunni um mánaðamótin orðið 107,13 krónur lítrinn eða svipað og bensínverðið. Er þá miðað við að Orkan taki 2 krónur í gjald vegna litunarkostnaðar eins og gert er í útreikningum á hugsanlegu verði annarra félaga hér að framan.