Bandaríski afþreyingarrisinn Disney hefur ákveðið að fækka starfsmönnum um tæplega 7 þúsund. Um er að ræða stærstu hópuppsögn Disney frá árinu 2019, þegar félagið var að ljúka yfirtökunni á 21st Century Fox, að því er segir í frétt Financial Times.

Í bréfi til starfsmanna sagði Bob Iger, forstjóri Disney, að hagræðingaraðgerðirnar muni standa yfir til byrjun sumars en megnið af breytingunum eigi sér stað í næsta mánuði.

Iger, sem sneri aftur í forstjórastól Disney í nóvember, sagði að aðgerðirnar væru nauðsynlegar svo að fyrirtækið gæti tekið upp „skilvirkari, samstilltari og straumlínulagaðri nálgun að rekstrinum“.