*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 19. júlí 2020 16:10

Disney dregur úr auglýsingum á Facebook

Disney, stærsti auglýsandi á Facebook, hefur hætt að auglýsa streymisveitur sínar á samfélagsmiðlinum.

Ritstjórn
Verslun Disney á Oxford Street
epa

Walt Disney Co. hefur dregið verulega úr auglýsingaútgjöldum á Facebook, samkvæmt heimildum WSJ. Disney var stærsti auglýsandinn á samfélagsmiðlinum á fyrstu sex mánuðum ársins. 

Afþreyingarfyrirtækið bætir sér í hóp hundruða fyrirtækja, þar á meðal Unilever, Starbucks, Ford og Verizon, sem hafa tímabundið hætt að auglýsa á Facebook. 

Disney, ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum, tilkynnti ekki um sniðgöngu á samfélagsmiðlinum heldur dró hljóðlega úr auglýsingum. Fyrirtækið er talið hafa áhyggjur af framkvæmd Facebook á stefnum sínum varðandi vafasamt efni.

Sjá einnig: Þriðjungur fyrirtækja tekur þátt

Disney hefur tímabundið hætt að auglýsa streymisveituna Disney+, sem var hleypt af stokkunum í nóvember síðastliðnum, á Facebook. Útgjöld til auglýsinga vegna streymisveitunnar hefur vegið þungt í auglýsingagjöldum Disney í ár. Félagið hefur einnig hætt að auglýsa systur-streymisveituna Hulu á Instagram, dótturfyrirtæki Facebook. Hulu eyddi um 16 milljónum dollara á Instagram á tímabilinu 15. apríl til 30. júní. 

Disney eyddi um 210 milljónum dollara á fyrri helming ársins í auglýsingar á Facebook, samkvæmt gagnaveitunni Pathmatics. 

Stikkorð: Facebook Disney Instagram Hulu Disney+