Fjölskylduímynd Disney fyrirtækisins samræmist illa drykkjulátum og særandi ummælum Mel Gibson í garð gyðinga, segir í frétt Financial Times.

Nýjasta mynd Gibson, sem ber nafnið Apocalypto, er væntanleg í kvikmyndahús í Desember, en Disney sér um framleiðslu hennar og markaðssetningu.

Það sem vekur þó meiri athygli er að til stóð að framleiða sjóvarpsþáttaröð um helför gyðinga í seinni heimstyrjöldinni með Gibson innanborðs, en nú hefur verið hætt við framleiðslu þáttanna, segir í fréttinni.

Talsmaður Disney hefur þó lýst því yfir að afsökunarbeiðni Gibson hafi verið tekin gild, en uppákoman þykir afar vandræðaleg þar sem Disney hefur undanfarið verið að slíta tengsl við framleiðslu á efni sem ekki telst fjölskylduvænt, segir í fréttinni.

Ekki virðast allir eiga jafn auðvelt með að fyrirgefa í Hollywood, en Ari Emanuel, forstjóri einnar stærstu umboðsskrifstofu Hollywood, Endeavor, hefur kallað eftir því að Gibson verði sniðgenginn í kvikmyndaborginni frægu.

Síðasta mynd Gibson, The Passion of the Christ, halaði inn 28,5 milljarða króna í miðasölu árið 2004.