*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Innlent 24. apríl 2019 10:48

Disney erfingi gagnrýnir forstjóralaun

Hátt í 8 milljarða króna launakjör forstjóra Disney sæta gagnrýni, en byggja á margföldun hlutabréfaverðs.

Ritstjórn
Robert Iger forstjóri Disney ásamt Mikka Mús.
Aðsend mynd

Barnabarn bróður Walt Disney tekur undir mikla gagnrýni sem laun Robert Iger, forstjóra fyrirtækisins hafa fengið, en hann er einn launahæsti forstjórinn í afþreyingariðnaðinum í heiminum. Nýleg rannsókn ráðgjafafyrirtækisins Equilar Inc, sýnir að árleg laun hans eru um 1.400 sinnum hærri en miðgildi launa hjá fyrirtækinu.

Nýjasti launapakki Iger var 65 milljónir dala, eða sem samsvarar 7,9 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

„Mér líkar vel við Bob Iger. Ég tala ekki fyrir hönd fjölskyldu minnar, einungis sjálfs míns,“ tísti Abigail Disney, barnabarn bróður Walt Disney og eigandi í félaginu. „En samkvæmt öllum hlutlægum mælikvörðum er launabil yfir þúsundföldu klikkað.“

Talsmenn Disney hafa þvert á móti bent á að laun starfsmanna skemmtigarða félagsins, 15 dalir á klukkutímann, séu tvöföld lágmarkslaun í landinu. Hann sagði að 90% af launum forstjórans byggðust á því hve vel gengi, en hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur hækkað upp í 132 dalir hluturinn frá 24 dölum þegar hann tók við árið 2005.

Í nóvember upplýsti félagið um methagnað, eða 12,6 milljarða dali af 59 milljarða tekjum. Í mars, nokkrum dögum fyrir hluthafafund félagsins lækkaði félagið möguleg laun forstjórans um 13,5 milljónir dala, vegna loka á kaupum félagsins á eignum 21st Century Fox.

Í kjölfarið samþykktu hluthafar með 57% atkvæða núverandi launakjör forstjórans að því er WSJ segir frá.

Stikkorð: Robert Iger Laun Abigail Disney