Disney hagnaðist um 4 milljarða dollara á fjórða ársfjórðungi 2019 og jókst um 9% milli ára en fjórðungurinn sá fyrsti á reikningsári félagsins fyrir árið 2019. Hagnaður var 1,53 dollarar á hlut sem var fram úr væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 1,44 dollara hagnaði á hlut.

Tekjur fjórðungsins námu tæplega 21 milljarði dollara og jukust um 36% milli ára en þær voru rétt yfir væntingum greiningaraðila. Tekjuvöxturinn kemur meðal annars til af því að streymisveitunni Disney+ var sett á laggirnar á fjórðungnum en samkvæmt fyrirtækinu voru áskrifendur orðnir 26,5 milljón talsins í lok fjórðungsins og eru í dag um 28,6 milljónir en meðaltekjur á hvern áskrifenda voru 5,56 dollarar.

Engar breytingar urðu á spá fyrirtækisins um áskrifendafjölda Disney+ en fyrirtækið gerir ráð fyrir að áskrifendur verði á milli 60 og 90 milljónir árið 2024. Bob Iger forstjóri fyrirtækisins sagði óbreytta spá koma til af því að allt of snemmt væri að segja til um þróun vaxtarins.

Þá greindi fyrirtækið einnig frá því að útbreiðsla kórónaveirunnar myndi hafa 175 milljóna dollara neikvæð áhrif á tekjur fyrirtækisins á yfirstandandi ársfjórðungi. Gert er ráð fyrir minni tekjum upp á 135 milljónir dollara af Disney garðinum í Shanghai og 40 milljónum vegna garðsins í Hong Kong.