Disney hefur tilkynnt að gefin verði út framhaldsmynd kvikmyndarinnar Frozen, sem er söluhæsta teiknimynd allra tíma. BBC News greinir frá þessu.

Fyrri myndin skilaði fyrirtækinu 1,27 milljörðum dala í tekjur, en fjárhæðin samsvarar 177 milljörðum íslenskra króna. Auk þess hefur fyrirtækið fengið gífurlegar tekjur af varningi tengdum kvikmyndinni.

Sama fólk mun standa að framhaldsmyndinni og hinni fyrri. Þannig mun Chris Buck leikstýra myndinni og Jennifer Lee skrifa handritið. Ekki er hins vegar búið að greina frá útgáfudegi myndarinnar.

Hlutabréf í Disney hækkuðu um nær 4% við tíðindin. Þá hækkuðu hlutabréf í leikfangaframleiðandanum Mattel um nær 5%, en fyrirtækið býr yfir réttindunum að framleiðslu Frozen-varnings.