Disney hefur ákveðið að hætta við áform sín um að byggja nýtt skrifstofuhverfi við Lake Nona, skammt frá skemmtigarði sínum í Orlando í Flórída. Skrifstofusamstæðan var metin á 1,3 milljarð Bandaríkjadali og hefði skapað í kringum 2.000 ný störf.

Ákvörðunin kemur í kjölfar deilna sem Disney hefur staðið í við Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída. Deilurnar hófust snemma á síðasta ári þegar DeSantis undirritaði ný lög sem takmörkuðu umræður um málefni hinsegin fólks eða kyn og kynvitund í skólum ríkisins.

Disney lýsti vanþóknun sinni á þessari lagabreytingu og í kjölfarið tók ríkisstjórn Flórída yfir landssvæði sem áður hafði verið sjálfstjórnarsvæði Disney. Stjórnmálasérfræðingar í Bandaríkjunum sögðu þá ákvörðun vera hefndaraðgerð af hálfu DeSantis við skoðanir Disney.

„Vill fylkið að við fjárfestum meira, ráðum fleiri starfsmenn og borgum meiri skatta eða ekki?“

Í mars á þessu ári sakaði Disney ríkisstjórann um að grafa undan frjálsu viðskiptaumhverfi í fylkinu með hefndaraðgerðum sínum og sagði að þeir 17 milljarðar dalir sem fyrirtækið hyggst leggja í framkvæmdir næstu árin væri í húfi. Disney er stærsti skattgreiðandi í Flórída og í fylkinu starfa í kringum 75.000 starfsmenn.

„Vill fylkið að við fjárfestum meira, ráðum fleiri starfsmenn og borgum meiri skatta eða ekki?“ sagði Bob Iger, framkvæmdastjóri Disney.

Stjórnendur Disney sendu minnisblað til starfsmanna sinna í gær og sögðu að ákvörðunin hafi verið tekin út af breyttum viðskiptaaðstæðum. Ekki var minnst á DeSantis með nafni en deilur fyrirtækisins við ríkisstjórann og bandamenn hans hafa verið mjög áberandi undanfarna mánuði.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, svaraði ákvörðuninni á Twitter síðu sinni og sagði að ofstækisfull stjórnmálastefna hefði afleiðingar. „Þetta eru 2.000 störf sem við bjóðum aftur velkomin til Kaliforníu.“