Risafyrirtækið Walt Disney notfærir sér mæður á veraldarvefnum til að auka hróður sinn og fá fleiri fjölskyldur í sína margfrægu skemmtigarða. Reuters greinir frá.

Ein af þessum mæðrum er Wendy Wright, sem á tvö börn. Hún er virkur bloggari og segist sjálf vera „Disney sjúk“. Kettirnir hennar heita Mikki og Mína og hún er dugleg að skrifa um Disney á netinu.

Wright hefur meðal annars skrifað um hvernig sé best að fara til Disneylands, hvernig halda skuli glæsileg Disney-þemapartý og þá hefur hún skrifað gagnrýni um Disney teiknimyndir. Skrif hennar vöktu athygli fyrirtækisins sem bauð henni að ganga í rúmlega 1.300 manna hóp, að mestu skipuðum mæðrum (og örfáum feðrum), sem Disney ræður til að markaðssetja sjálft sig og koma af stað jákvæðri umfjöllun um fyrirtækið.

„Það er augljóst að við erum Disney fjölskylda,“ sagði Wright, en Disney mæður fá ekki borgað. Þær fá alls konar hlunnindi frá fyrirtækinu – mikla afslætti í Disney garðana og fleira.

Walt Disney heldur síðan stóra og flotta ráðstefnu fyrir þessar mæður sem stendur í fjóra daga og er blanda af fríi og fyrirlestrum. Þeim er ekki sagt um hvað þær eiga að skrifa og þær eru ekki skyldugar til að skrifa ákveðið mikið. En samtals tístu þessar mæður 28.500 sinnum á Twitter, settu inn 4.900 myndir á Instagram og skrifuðu 88 langar bloggfærslur um Walt Disney – allt í kringum ráðstefnuna í maí! Þessar færslur eru vitanlega mjög jákvæðar.

Ástæðan fyrir því að Disney er með þennan her af mæðrum á sínum snærum er talin vera sú að mæður í Bandaríkjunum ráða oft miklu um það hvert fjölskyldan ferðast. Þessar færslur frá mæðrunum geti haft margfeldisáhrif og laðað margar fjölskyldur inn í risastóra skemmtigarða Disney.

Hvernig nákvæmlega Disney velur mæðurnar sem þeir vilja fá í lið með sér á samfélagsmiðlum er hulin ráðgáta, en bloggfærslu sem veitti ráð um hvernig ætti að vera valinn var deilt 1.600 sinnum á vefnum.

Ljóst er að fleiri fyrirtæki gætu fetað í fótspor Disney. Maria Bailey, ráðgjafi sem meðal annars ráðlagði Disney um það hvernig best væri að markaðssetja sig á samfélagsmiðlum, segir að mæður í Bandaríkjunum eyði árlega 3,2 trilljónum dollara. Bætir hún því við að mörg fyrirtæki vilji gera nákvæmlega það sem Disney hefur gert með svo góðum árangri frá árinu 2010.