Walt Disney hyggst leggja allt í sölurnar fyrir næstu stórmynd sína, ofurhetjumyndina Marvel's The Avengers, sem kemur út í sumar. Með stórri auglýsingaherferð vill Disney koma í veg fyrir jafn afleita afkomu og raunin varð af kvikmyndinni John Carter. Talið er að tap vegna hennar nemi um 200 milljónum dollara.

The Avengers verður frumsýnd þann 4. maí næstkomandi. Til þess að vekja athygli á myndinni hefur Disney meðal annars hafið sýningar á teiknimyndum byggða á sögunum auk þess að bjóða upp á netleik.

Myndin verður sú fyrsta eftir að Disney keypti teiknimyndasögufyrirtækið Marvel árið 2009 fyrir 4 milljarða dollara.