Skemmtiferðaskipið Disney Magic  mun koma til Reykjavíkur í júlí á næsta ári og stoppa yfir nótt við Skarfabakka. Þetta er í fyrsta skipti sem skip Disney kemur til Íslands.

Disney Magic er 84.000 rúmlestir að stærð og tekur 1.750 farþega. Skipið er í flota Disney Cruise Line sem er í eigu Disney World í Florída. TVG-Zimsen, mun þjónusta skipið á meðan dvöl þess stendur í Reykjavík.

Disney Magic er skreytt öllu því besta frá Disney World og má m.a. sjá Mikka Mús, Guffa og Litlu Hafmeyjun í sölum skipsins. Skemmtiatriði um borð í skipinu eru öll ættuð úr Disney-fjölskyldunni og verslanir selja Disney varning.

„Disney skipin eru sérstaklega hugsuð fyrir fjölskyldufólk. Um borð eru vatnsrennibrautagarðar og bíósalir og boðið er upp á flugeldasýningar. Þá er hver ferð með ákveðið þema og verður Íslandsferðin undir áhrifum frá myndinni Frozen, eða Frost, sem var frumsýnd af Disney í fyrra,“ segir Jóhann Bogason, deildarstjóri hjá TVG-Zimsen.

© Aðsend mynd (AÐSEND)