Kanadíski farsímaframleiðandinn Research In Motion (RIM), sem framleiðir Blackberry símana, hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri. Nýjar vörur hafa ekki fangað athygli neytenda og .þá hafa fréttir ítrekað borist af stórkostlega vitlausum ákvörðunum stjórnenda fyrirtækisins. Er framkvæmdastjóra í Indónesíu t.d. gefið að sök að hafa orðið valdur að óeirðum.

Nú hefur fyrirtækið skipt um forstjóra og lagt af stað í nýja markaðsherferð, sem gagnrýnendur segja að sé skýrt merki um að stjórnendur fyrirtækisins hafi algerlega tapað tengslunum við raunveruleikann. Herferðin byggir á fjórum teiknimyndaofurhetjum, ungum að aldri, sem kallast á ensku „The Bold Team“, en útleggja mætti á íslensku „Djarfa deildin“. Í deildinni eru fjögur ungmenni, GoGo Girl, Justin Steele, Trudy Foreal (sem segir alltaf sannleikann) og Max Stone (sem er ekki hræddur við að hoppa út úr flugvélum!) og eiga þau væntanlega að gera Blackberry síma meira aðlaðandi í augum unglinga og barna.

Eins og áður segir er Max Stone ekki hræddur við að hoppa út úr flugvélum, sem er skemmtilega óheppilega að orði komist í markaðsherferð frá RIM. Ekki er langt síðan tveir yfirmenn hjá RIM komust í fréttirnar fyrir að vera svo stórkostlega drukknir um borð í flugvél að lenda þurfti vélinni og vísa þeim frá borði.