Ríkið og Vegagerðin senda nú frá sér hverja tilkynninguna af annarri um að hætt hafi verið við verk sem áður var búið að ákveða að bjóða út. Sveitarstjórnarmenn hafa eðlilega áhyggjur af niðurskurðarbylgjunni þar sem hluti af samgönguuppbyggingunni var m.a. hugsaður sem mótvægisaðgerðir gegn niðurskurði á þorskkvóta á sínum tíma.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, átti fund með forsætisráðherra á miðvikudag. Hann segir niðurskurðinn að sumu leyti skiljanlegan, en samtökin halda nú fjármálaráðstefnu sem hófst í gær í skugga fjármálaþrenginga. „Ég ætla að vona að þetta sé bara tímabundið á meðan þeir eru að reyna að átta sig á stöðunni. Það er þó djöfullegt að vera svona lengi í óvissuástandi. Maður sýnir þessu þó miklu meiri skilning en oft áður. Staðreyndin er hins vegar sú að í þenslu er skorið niður í vegaframkvæmdum og í kreppu er líka skorið niður í vegaframkvæmdum. Við skiljum þó betur að það sé skorið niður vegna kreppu.“

Þarna vitnar Halldór til vegarspotta í Vestur-Barðastrandarsýslu sem var til umræðu á Alþingi í vikunni. Hann var skorinn niður á sínum tíma vegna þenslu í þjóðfélaginu og er nú aftur skorinn niður vegna kreppu. Ekki hefur fengist nákvæm útlistun á því frá samgönguráðuneytinu hvernig niðurskurðarhnífnum verður beitt á opinberar framkvæmdir.

Þess sér þó stað í því að Vegagerðin hefur t.d. hætt við útboð sem auglýst var 27. október vegna endurgerðar á 7,4 kílómetra kafla Rangárvallavegar frá hringvegi að Akurbrekku. Stutt er líka síðan samgönguráðherra tilkynnti að fyrirhuguðu útboði vegna jarðgangagerðar í gegnum Vaðalheiði yrði slegið á frest.