Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic og eiginkona eiga 80% hlut í danska líftæknifyrirtækinu QuantBioRes A/S, sem þróar meðferð gegn Covid-19 veirunni. Forstjóri fyrirtækisins sagði við danska fjölmiðlinn BT að fjárfestingin hafi farið fram í júní 2020 en vildi ekki gefa upp kaupverðið.

Djokovic, sem er óbólusettur gegn Covid-19, hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikurnar en áströlsk yfirvöld felldu vegabréfsáritun hans úr gildi vegna brota á öryggisreglum í tengslum við sóttkví. Djokovic, sem var mættur til þátttöku á ástralska opna tennismótinu, var því gert að yfirgefa landið.

QuantBioRes þróar peptíð (e. peptide), sem vonast er til að komi í veg fyrir að kórónuveiran geti sýkt mannfrumur, samkvæmt Reuters . Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn, áætlar að hefja klínískar rannsóknir í Bretlandi í sumar. Forstjórinn hélt því til haga að um væri að ræða meðferð gegn Covid-19 en ekki bóluefni.

Samkvæmt Forbes þénaði Djokovic tæplega 35 milljónum dala, eða um 4,5 milljörðum króna, frá maí 2020 til maí 2021. Þar af fékk hann 4,5 milljónir dala í verðlaunafé á tennismótum.