Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, var valinn maður ársins á Stöð 2 en tilkynnt var um þetta í áramótaþættinum Kryddsíld. Lagerbäck er sá þjálfari sem hefur komist næst því að tryggja landsliðinu sæti í úrslitakeppni stórmóts en íslenska liðið datt úr leik eftir umspil við Króata eins og margir muna.

„Þetta er mikill heiður og ég er glaður og þakklátur," sagði Lagerbäck í viðtali á Stöð 2. „Ég trúi því samt að það séu fleiri á Íslandi sem hafa gert merkilegri og stærri hluti en ég og ættu því þennan heiður ekki síður skilið. Ég er engu að síður djúpt snortinn og þakklátur fyrir þennan heiður sem mér er sýndur."

Spurður hvort hann hafi tíma fyrir eitthvað annað en fótbolta þegar hann er staddur á Íslandi svarar Lagerbäck: „Þegar ég er á Íslandi vinn ég yfirleitt frá morgni til kvölds. Ég hef samt sem áður ferðast talsvert um Ísland og heimsótti fjölmarga staði nú í sumar."

„Ég ólst sjálfur upp á bóndabæ og er mikill náttúruunnandi. Mér þótti sérstaklega gaman að keyra til Akureyrar. Áður hafði ég flogið þangað en í sumar fór ég akandi. Þetta er mjög fallegt land og ef maður er hrifinn af annars konar náttúru er þetta land mjög merkilegt heim að sækja. Ég fór líka til Vestmannaeyja og fannst dásamlega fallegt þar. Ég hef því skoðað mig heilmikið um og er mjög hrifinn."

Útvarpsstöðin Bylgjan valdi líka mann ársins í dag og varð íslenski heilbrigðisstarfsmaðurinn fyrir valinu.