Fjórir af sex undirliðum hagvísisins lækkuðu frá því í mars en þar vegur fækkun ferðamanna mest. Væntingavísitala Gallup og debetkortavelta lækkuðu einnig. Hins vegar hefur langtímauppleitni mikilvægra undirþátta verið sterk en hún hefur minna um að segja til skemmri tíma.

Hagvísirinn lækkaði í 92,3 í apríl en hann tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni. Miðað við að hagvísirinn hafi forspárgildi um vendipunkta næstu sex til níu mánuði er líklegt að djúpur efnahagssamdráttur vari inn á næsta ár. Sérstök óvissa er tengd ferðaþjónustu og lamandi áhrifum COVID-19 veikinnar á efnahagslíf og uppnám á vettvangi alþjóðastjórnmála tengt henni.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Hann er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup.

Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir flest helstu iðnríki um áratugaskeið í þeim tilgangi að veita tímanlega vísbendingu um framleiðsluþróun.