Matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á sl. þriðjudag hefur hækkað um tugi prósentna síðastliðið hálft ár.

Algengt er að vörur hafi hækkað um 30%-50% frá því í verðkönnun verðlagseftirlitsins í vor en dæmi eru um yfir 100% verðhækkun.

Þetta kemur fram á vef ASÍ en þar kemur einnig fram að verð hefur almennt hækkað mest í lágvöruverðsverslunum á milli kannana.

Samkvæmt vef ASÍ hefur verð á brauði, kexi, pasta, og hrísgrjónum sem skoðað var, hækkað í flestum tilvikum yfir 50% í lágvöruverðsverslunum en nokkuð minna í öðrum verslunum.

Þá kemur fram að þegar skoðaður er munur á meðalverði í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum nú í nóvember og í vor má sjá að í flestum tilvikum er mun minni munur á meðalverði í þessum verslunargerðum nú en í vor.

Verð í lágvöruverðsverslunum hefur, að sögn ASÍ, almennt hækkað meira en í öðrum verslunum sem þýðir samkvæmt þessu að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða hefur minnka.

Sjá nánar á vef ASÍ.