Súrefnið sem íslenskt efnahagslíf andaði að sér að síðustu árum var erlent fjármagn. Þetta segir Jón Daníelsson, professor við London School of Economics í samtali við kanadíska dagblaðið The Globe and Mail. Sökum mikillar verðbólgusögu hélt Seðlabanki Íslands vöxtum háum á Íslandi, sem orsakaði lántökur alþjóðlegra fjárfesta í lágvaxtamyntum sem þeir færðu síðan til Íslands til að hirða vaxtamuninn.

Á þeim tíma höfðu bankarnir síðan nýlega verið einkavæddir og með þessa gríðarlegu fjármuni undir höndunum var bönkunum stýrt af kláru, vel menntuðu og áhættusæknu fólki, eins og Jón orðar það í viðtalinu.

Jón segir hegðan bankanna dæmigerða fyrir nýmarkaði: „Þeir héldu að þeir hefðu fundið leyniuppskriftina að auðlegð. Á sama tíma og heimurinn var að upplifa stærstu eignabólu allra tíma,” segir hann.

„Þetta er ótrúlega slæmt,” segir Jón. „Við erum fyrsta þróaða ríkið sem sækist eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í 30 ár. Einn þriðji fólksins í landinu íhugar að flytjast á brott.”