DnB Nor, stærsti banki Noregs, hefur kynnt ný fjárhagsleg markmið fyrir tímabilið 2008-2010 þar sem stefnt er að því að árleg arðsemi eigin fjár verði 16% í stað 15% áður og hagnaður fyrir virðisrýrnun útlána og skatta aukist um tíu prósent að meðaltali á ári. Það þýðir að hagnaður bankans fyrir afskriftir og skatta myndi aukast um rúm 40% frá 2006 til 2010 og yrði um 20 milljarðar norskra króna. Greint var frá þessu í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

Lækkun kostnaðar
Aðhald í kostnaði er meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til. Stefnt er að því að draga úr kostnaði við starfsemi bankans í Noregi sem mun nema einum milljarði norskra króna á hverju ári framt til ársins 2010. Ætlunin er að fækka útibúum og öðrum starfsstöðvum um 30 talsins. Stjórnendur DnB Nor horfa til þess að kostnaðarhlutfall, það er hlutfall kostnaðar af hreinum rekstrartekjum, fari niður fyrir helming og verði 46% árið 2010.


Sótt út fyrir landssteinana
Samtímis og dregið verður úr kostnaði á heimaslóðum ætlar bankinn að sækja fram í almennri bankastarfsemi í Svíþjóð og auka starfsemi sína í Eystrasaltsríkjunum í gegnum DnB NORD. Auk þess ætlar bankinn að nýta sér sérþekkingu sína á sviði skipa- og orkustarfsemi, fiskveiða og fiskeldis til sóknar á alþjóðlegum mörkuðum. Heima fyrir ætlar hann að nýta sér sterkt dreifikerfi til þess að selja viðskiptavinum sínum fleiri bankaafurðir og jafnframt ætlar félagið að hefja rekstur skaðatryggingafélags.


DnB Nor er fjórða stærsta fjármálafyrirtæki Norðurlanda: metið á 1.250 milljarða króna.