*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 3. maí 2021 09:33

DNB sektað um 6 milljarða

Bankinn sektaður um 6 milljarða fyrir að fylgja ekki peningaþvættislögum, m.a. í tengslum við viðskipti fyrirtækja í eigu Samherja.

Ritstjórn
Kjerstin Braathen, forstjóri norska bankans DNB.
european pressphoto agency

Norski bankinn DNB hefur verið sektaður um 400 milljónir norskra króna, eða sem nemur um 6 milljörðum íslenskra króna, af norska fjármálaeftirlitinu. RÚV greinir frá þessu. 

Segir fjármálaeftirlitið að bankinn hafi framfylgt lögum um eftirlit með peningaþvætti á slælegan hátt, þá meðal annars í tengslum við viðskipti fyrirtækja við bankann sem eru í eigu útgerðarfélagsins Samherja. 

Bankinn hyggst ekki áfrýja úrskurði fjármálaeftirlitsins og hefur sektin þegar verið kynnt til kauphallarinnar í Noregi, auk þess sem sektin hefur verið bókfærð í bókum bankans.

Í skýrslu norska fjármálaeftirlitsins er DNB gagnrýndur harðlega. Rannsókn sem gerð hafi verið á starfsemi bankans í byrjun síðasta árs hafi sýnt fram á að mikið vantaði upp á til að bankinn framfylgdi lögum um eftirlit með peningaþvætti.

Rannsókn sem ráðist var í framhaldinu þar sem farið var yfir viðskipti fyrirtækjanna í eigu Samherja hafi að sama skapi leitt alvarlegar brotalamir í ljós. Sökum þessa mat fjármálaeftirlitið svo að 400 milljóna króna sekt væri hæfileg.

Bankinn viðurkennir í yfirlýsingu, og tekur undir með fjármálaeftirlitinu, að nauðsynlegar upplýsingar hafi vantað um 6 fyrirtæki í tengslum við rannsókn á Samherjafélögunum. Sömu veikleikar hafi komið fram í innri rannsókn.