Aðfaranótt s.l. sunnudags náðu aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) samkomulagi um ramma fyrir framhald samningaviðræðna um frekara frjálsræði í viðskiptum. Samkomulagið festir ákveðin grunnviðmið og markmið í sessi í viðræðum um landbúnað, markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur, þjónustuviðskipti og þann lið að greiða fyrir viðskiptum.

"Þetta samkomulag er mikilvægt vegna þess að með því komast viðræðurnar, sem sigldu í strand í Kankún í september í fyrra, aftur á sporið, sagði Stefán Haukur Jóhannesson, fastafulltrúi Íslands í
Genf, í samtali við Stiklur, vefrit viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins en hann leiðir jafnframt samninganefnd WTO um markaðsaðgang fyrir
iðnaðarvörur. ?Með þessu móti verður áfram hægt að vinna að þeim markmiðum sem sett voru við upphaf viðræðnanna í Dóha árið 2001 og tryggja eiga vaxandi hagsæld fyrir heimsbyggðina, ekki síst þróunarríkin. Sérstök áhersla er lögð á að stuðla að auknum viðskiptum þróunarlanda enda eru viðskipti besta þróunarhjálp sem fátæk ríki geta fengið.?

Rammasamkomulagið gerir m.a. ráð fyrir að heimildir aðildarríkja til að styrkja landbúnað eftir leiðum, sem teljast framleiðslutengdar og
markaðstruflandi, skuli lækka um 20% strax við gildistöku hugsanlegs samnings. Enn á eftir að semja um hversu mikil lækkunin verður á heildina
litið. Samkomulag náðist um afnám útflutningsstyrkja fyrir ákveðið tímamark sem samið verður um síðar. Gert er ráð fyrir að heimildir til að leggja á hæstu tolla í landbúnaði lækki frekar en heimildir til að leggja á lægri tolla. Ákveðið svigrúm verður fyrir aðildarríki til að lækka tolla á viðkvæmar vörur minna en tolla á aðrar vörur. Gert er ráð fyrir auknum tollkvóta til að tryggja aukinn markaðsaðgang fyrir búvörur í
heimsviðskiptum.

?Samkomulagið markar frekar almennan ramma utan um landbúnaðarviðræðurnar? sagði Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins, í samtali við Stiklur. ?Það er því ótímabært að leggja mat á það hvaða áhrif samkomulagið kann að hafa á íslenskan landbúnað á komandi árum. Enn á eftir að ná samkomulagi um tölulegar stærðir og formúlunálganir, t.d. hvað varðar lækkun innanlandsstuðnings eða tolla. Á vettvangi WTO bíður okkar, á næstu misserum, að fylla inn í eyðurnar og að útfæra betur þær aðferðir og reglur sem endanlegar skuldbindingar munu grundvallast á. Sá grunnur sem nú liggur fyrir tryggir okkur ásættanlega stöðu fyrir framhaldið svo íslenskur landbúnaður geti
farsællega tekist á við þær breytingar sem framundan eru.?
Hæstu tollbindingar fyrir vörur, aðrar en landbúnaðarvörur, lækka meira en lægri bindingar.

Samið verður sérstaklega um afnám tolla á vörur sem eru þróunarríkjunum mikilvægar. Ekki hefur verið ákveðið um hvaða vöruflokka verður að ræða. Gert er ráð fyrir að þróunarríki hafi meiri sveigjanleika en iðnríki til að viðhalda tollum. Minna er fjallað um aðra þætti viðræðnanna í þeim
samkomulagsramma sem nú liggur fyrir.