Aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) stefna fyrir lok þessarar viku að samkomulagi um framhald samningaviðræðna (Doha viðræður) um aukið frelsi í heimsviðskiptum. Aðildarríkjum WTO tókst ekki að semja um sambærilegan ramma á ráðherrastefnu stofnunarinnar sem haldinn var í Kankún í september á síðasta ári og sigldu viðræðurnar í strand í kjölfarið. Síðan þá hefur verið leitað leiða til að ýta viðræðunum af stað á ný og gera aðra tilraun til að blása til sóknar.

Mest áhersla er lögð á að leysa vandamál í viðræðunum um landbúnað, markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur og málefni þróunarríkja. Lítið sem ekkert er fjallað um aðra þætti samningaviðræðnanna, þ.á m. samningaviðræður um ríkisstyrki í sjávarútvegi. Ekki vegna þess að minni áhersla sé lögð á þessa þætti, heldur vegna þess að góður gangur er í viðræðunum og ekki var talin ástæða til að grípa sérstaklega inn í þær segir í Stiklum, fréttabréfi viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Markaðsaðgangur fyrir iðnaðarvörur

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, stýrir viðræðunum um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur (NAMA nefndin). Hann segir í viðtali við Stiklur að menn vinni nú ötullega að því að ná árangri. "Nú spyr að leikslokum. Það verður að segjast eins og er að þetta hefur gengið erfiðlega enda miklir hagsmunir í húfi og niðurstaðan hefur áhrif á afkomu milljarða manna um heim allan," er haft eftir Stefáni í Stiklum.? Stefán Haukur lagði áherslu á að ekki væri verið að ljúka viðræðunum heldur einungis verið að reyna að ryðja úr vegi hindrunum og skapa sátt um að hvaða niðurstöðu bæri að stefna.

Telja misskilning á ferð um málefni þróunarríkja

Vegna fréttaflutnings Fréttablaðsins um málefni þróunarríkja og stöðuna í viðræðunum, sem Stefán Haukur stýrir, um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur, sagði Stefán í Stiklum að ákveðinn misskilningur sé uppi sem hefði síðan verið leiðréttur. ?Það er reyndar algengt að ríki beiti aðferðum eins og þeirri gagnrýni sem að uppi var höfð til að styrkja samningsstöðu sína. Í þessu tilviki var hins vegar um ákveðinn misskilning að ræða sem fólst í því að þau þróunarríki sem gagnrýndu formann nefndarinnar héldu að ég væri að leggja fram lokatexta fyrir samninga um þetta svið. Sú var alls ekki raunin enda var ég að leggja fram þann samningstexta sem við erum að vinna með sem kafla í stærri pakka sem verið er að semja um en í þeim samningspakka á einnig að fjalla um landbúnað, þjónustuviðskipti, sérmálefni þróunarríkja o.fl.. Síðan á að semja frekar um þetta og reyna að ná niðurstöðu í lok vikunnar eins og sagði áðan," segir Stefán í Stiklum.

Textinn sem Stefán Haukur lagði fram er sami texti og ráðherrar aðildarríkja WTO voru að vinna með í Kankún fyrir tæpu ári en aldrei reyndi á hvort hægt væri að ná sátt um því fundurinn í Kankún fór út um þúfur af öðrum ástæðum. Um það segir Stefán í Stiklum: "Eftir ítarlegt samráð við flest aðildarríkin taldi ég það eina rétta í stöðunni og vænlegast til árangurs að leggja textann óbreyttan fram og gefa þannig aðildarríkjunum tækifæri til að takast á um hann í lokasprettinum. Vissulega er enginn fullkomlega ánægður með hann, síður en svo, en í honum felst mjög viðkvæmt jafnvægi sem gæti raskast og sett viðræðurnar í uppnám ef hróflað verður við honum of mikið.?

Stefán Haukur segir að reyndar hafi langflest aðildarríkjanna fallist á þetta mat og vilja reyna að vinna með textann með það fyrir augum að breyta honum sem minnst. ?Ég útskýrði þetta ítarlega á fundi 8. júlí og fylgdi því eftir með bréfi um hver staðan væri, hver væru helstu vandamálin og m.a. hver sjónarmið þróunarríkja væru til þessa texta til að auðvelda frekari samningaviðræður. Þessu bréfi var dreift til allra aðildarríkjanna og þá leiðréttist þessi misskilningur.?

Stefán Haukur bætti síðan að lokum við að hann hefði einnig fengið samtímis bréf frá hópi 32 fátækustu aðildarríkja WTO (svo kölluð Least Developed Countries) þar sem þau lýstu fullum stuðningi við ákvörðun formannsins.

Í Stiklum segir síðan: "Rétt er að lokum að leiðrétta þann misskilning sem fram kom í grein Fréttablaðsins í gær að alþjóðastofnanir hafi tekið undir gagnrýnina. Hið rétta er að um frjáls félagasamtök var að ræða en ekki alþjóðastofnanir og gætti þar sama misskilnings og áðan getur. Samkvæmt samningsdrögunum sem nefndin er að vinna með er gert ráð fyrir víðtækum undanþágum fyrir þróunarríki og er reyndar ekki gert ráð fyrir nokkrum tollalækkunum hjá fátækustu ríkjunum."