*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 6. júní 2018 11:35

Dohop fær lán frá easyJet

Lággjaldaflugfélagið getur breytt tæplega 280 milljóna króna láni til félagsins í 15% eignarhlut.

Ritstjórn
Davíð Gunnarsson er framkvæmdastjóri Dohop.
Haraldur Guðjónsson

Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop segir ástæðu lánveitingar easyJet til fyrirtækisins vera að tryggja fjárhagslegt bolmagn fyrirtækisins til að takast á við verkefni fyrir félagið.

Auk þess sjái flugfélagið fjárfestingartækifæri í láninu, að því er Fréttablaðið greinir frá, en félagið getur breytt láninu í 15% eignarhlut í Dohop við lok lánstímans. Um er að ræða lán fyrir 2,25 milljónir evra, eða jafnvirði 279 milljóna króna, en Worldwide þjónusta easyJet er knúin af Dohop.

Þjónustan hjálpar viðskiptavinum fyrirtækisins að finna tengiflug í gegnum önnur flugfélög og segir Davíð að easyJet líti á þetta sem lykilstef í vexti félagsins til framtíðar. Hjá Dohop starfa nú 35 manns, en félagið var stofnað utan um lausn við að finna hagkvæmustu flugfargjöldin.

„Í gegnum þá vinnu bjuggum við til tækni sem enginn annar í heiminum býður upp á og hentar vel fyrir lággjaldaflugfélög sem vilja fara í samstarf við önnur flugfélög um að finna tengiflug, segir Davíð þó hann segi að áfram verði boðið upp á flugleit á vef fyrirtækisins.

„Við erum í viðræðum við um 100 flugfélög í fimm heimsálfum um samstarf. Núna erum við með einn viðskiptavin á þessu sviði en reiknum með að þeir verði fjölmargir í framtíðinni.“

Stikkorð: easyJet Dohop Worldwide