Dohop sérhæfir sig í að þróa hugbúnað á sviði ferðaþjónustu. Vefurinn er vinsæll meðal landsmanna, en fyrirtækið hefur engu að síður verið rekið með tapi síðastliðin tvö ár.

Tap félagsins á árinu 2015 var að fjárhæð 134,5 milljónir króna, en það var að upphæð 22,5 milljón króna árið áður. Eigið fé félagsins í árslok var 13 milljónir króna.

Á árinu 2015 réðst fyrirtækið í hlutafjáraukningu sem tryggði því 70 milljónir króna. Í lok ársins var svo ráðist í hlutafjáraukningu að fjárhæð 50 milljón króna. Í aprílmánuði 2016 gaf fyrirtækið út skuldabréf fyrir samtals 60 milljónir króna.

Eignir félagsins hafa dregist saman milli ára. Árið 2014 námu eignir Dohop 93,9 milljónum, en árið 2015 var sú upphæð komin niður í 48,7 milljónir.

Árið 2014 var eigið fé alls 77,5 milljónir króna, en eins og fram kom nam eigið fé í árslok 2015, 13 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 27%.

Fyrirtækið skuldaði 16,5 milljónir árið 2014, en 35,7 milljónir króna árið 2015. Samkvæmt yfirliti um sjóðsstreymi nam handbært fé í árslok 24,1 milljónum króna. Árið 2014 hafði sú upphæð numið 80,6 milljónum króna.