Dohop ehf., sem rekur samnefnda bókunarsíðu var rekið með 181 milljóna króna tapi árið 2018. Afkoman versnaði um 186 milljónir milli ára en félagið var rekið með 5,2 milljóna króna hagnaði árið 2017.

Rekstrartekjur félagsins námu 413 milljónum króna og jukust um 11 milljónir króna milli ára. Rekstrarkostnaður hækkaði hins vegar úr 391 milljón í 546 milljónir króna eða um 155 milljónir króna. Því var rekstrartap upp á 133 milljónir en rekstrarhagnaður upp á 11,4 milljónir króna árið 2017.

Kostnaðarverð seldra vara hækkaði úr 140 milljónum í 157 milljónir, laun og verkatakakostnaður úr 149 milljónum í 202 milljóna. Þá hækkaði annar rekstrarkostnaður úr 37 milljónum í 53 milljónir og annar rekstrarkostnaður úr 65 milljónum í 109 milljónir. Bókfærð var niðurfærsla þróunarkostnaðar upp á 25 milljónir króna. 25 stöðugildi voru hjá félaginu 2018 en 22 árið 2017.

Eignir félagsins, að mestu óefnislegar eignir hækkaði úr 214 milljónum í 383 milljónir króna á milli ára. Þá lækkaði eigið fé félagsins úr 89 milljónum í 5 milljónir króna, en skuldir hækkuðu úr 124 milljónum í 378 milljónir króna. Hlutafé félagsins var aukið um 97 milljónir króna á síðasta ári og þá var tekið lán sem heimilt er að breyta í hlutafé upp á 300 milljónir króna.

Handbært fé til rekstrar nam 82 milljónum króna í fyrra en var 20 milljónir árið 2017. Þá var handbært fé í árslok 9,9 milljónir um síðustu áramót en 181 þúsund krónur í lok árs 2017.

Stærstu hluthafar Dohop eru Vivaldi Ísland ehf. með 15,3% hlut, Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, með 10,6% hlut, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með 8,4% hlut og Brimgarðar með 4,5% hlut.