Íslenska flugleitarvélin Dohop hefur verið tilnefnd til World Travel Awards verðlaunanna í flokknum „Besta flugleitarvél heims“.

World Travel Awards voru stofnuð árið 1993 til að vekja athygli á, verðlauna og hampa því besta í ferðabransanum á heimsvísu. World Travel Awards leita sjálf að því besta sem er í boði í ferðabransanum og tilnefning Dohop er frá þeim komin. Verðlaunin verða afhent í lokahófi World Travel Awards í Marrakech í Marokkó í lok nóvember.

“Það er auðvitað frábært að fá svona viðurkenningu. Dohop er þarna sett í flokk með fremstu fyrirtækjum heims í ferðabransanum, eins og Hilton, Carnival Cruises og flugfélaginu Southwest, sem öll eru tilnefnd í sínum flokki,” segir Kristján Guðni Bjarnason, framkvæmdarstjóri Dohop.

Dohop fékk í kjölfarið undirsíðu hjá World Travel Awards sem er sérstaklega ætluð kosningu fyrirtækisins. Sú síða er nú opin og allir geta kosið til 19. október, þó telja atkvæði þeirra í ferðabransanum tvöfalt á við önnur atkvæði. Árið 2013 bárust um hálf milljón atkvæða til tilnefndra fyrirtækja.