World Travel Awards hafa tilnefnt íslenska flugleitarvefinn Dohop sem þann besta í heimi, sjötta árið í röð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Dohop hefur unnið þessi verðlaun síðustu tvö ár og samtals þrisvar frá árinu 2014. Líkt og undanfarin ár er keppnin hörð enda eru þetta ein virtustu verðlaunin sem veitt eru í ferðaþjónustunni.

Meðal þeirra fyrirtækja sem eru tilnefnd í ár ásamt Dohop eru risarnirá markaðinum, Momondo, Kayak og Skyscanner. Dohop hefur einnig verið tilnefnt síðust tvö ár til verðlauna í flokki „Besta tæknilausnin í ferðaiðnaðinum“ (e. World’s Leading Travel Technology Provider). Sú lausn Dohop knýr meðal annars Worldwide by easyJet sem er fyrirmynd svipaðra lausna hjá öðrum flugfélögum.

World Travel Awards fagna 25 ára afmæli í ár. Þau voru fyrst afhent árið 1993 til að vekja athygli á og verðlauna framúrskarandi fyrirtæki í ferðabransanum á heimsvísu. World Travel Awards tilnefna sjálf það besta sem í boði er árlega í ferðabransanum og er tilnefning Dohop frá þeim komin.

„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur í ár og mikil orka hefur farið í að þróa vörur fyrir flugfélög með ágætis árangri erlendis. Við höfum á sama tíma ekki slegið af kröfum okkar um að bjóða notendum okkar upp á besta flugleitarvef heims og því er þessi tilnefning kærkomin áminning um að við séum á réttri braut.” segir Davíð Gunnarsson, forstjóri Dohop.

Kosning um sigurvegara fer fram meðal notenda og fyrirtækja í ferðageiranum en lokaathöfnin fer fram í Lisabon í Portúgal 1. desember næstkomandi.