Íslenska ferðatæknifyrirtækið Dohop hefur tryggt sér á annan milljarð íslenskra króna í fjármögnun frá Scottish Equity Partners (SEP), breskum fjárfestingasjóði sem sérhæfir sig í fjárfestingum í vaxandi tæknifyrirtækjum. Þetta kemur fram í tilkynningu Dohop.

Tækni Dohop gerir flugfélögum kleift að selja tengiflug með öðrum flugfélögum og leyfir þeim að fjölga þannig áfangastöðum og þjóna fleiri farþegum en ella. Þessi tækni nýtist vel flugfélögum sem vilja endurreisa rekstur sinn með lægri tilkostnaði og stærra leiðakerfi þegar flugferðir hefjast á ný eftir Covid-19.

Dohop byggir á 15 ára reynslu sinni sem flugleitarvél og þeirri tækni sem er þar að baki. Nú þegar eru um 35 flugfélög að nýta tækni félagsins, þar á meðal easyJet, Jetstar og Eurowings.

Ráða fólk með tækniþekkingu

Dohop er fyrsta íslenska fyrirtækið sem sjóðurinn Scottish Equity Partners fjárfestir í en þó ekki fyrsta ferðafyrirtækið. Árið 2007 fjárfesti SEP í Skyscanner sem er ein vinsælasta flugleitarvél í heimi. Skyscanner var selt árið 2016 til Trip.com á jafnvirði 210 milljarða íslenskra króna.

„Fjárfestingin frá SEP leyfir okkur að sækja enn framar í þróun á okkar tækni ásamt því að geta markaðssett hana af meiri krafti til fleiri flugfélaga og gert þeim kleift að tengjast þeim flugfélögum sem þau vilja. Á þremur árum höfum við fjölgað viðskiptavinum töluvert og viljum halda því áfram. Með stuðningi SEP getum við tengt saman stærstu flugfélög í heimi, flugvelli og aðra ferðaþjónustuaðila svo sem lestir og rútur sem fjölga valkostum farþega. Reynsla SEP af því að hjálpa tæknifyrirtækjum að stækka og bakgrunnur þeirra úr ferðageiranum er verðmætt veganesti fyrir okkur í frekar vexti félagsins", segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, í tilkynningunni.

Stuart Paterson, meðeigandi hjá SEP og nýr stjórnarmaður Dohop bætir við: „Hjá Dohop starfar öflugur hópur fólks með góða þekkingu á fluggeiranum. Hugbúnaður Dohop hefur alla burði til þess að bylta sölu og dreifingu á ferðaþjónustu og félagið er á góðri leið með að verða fyrsti valkostur flugfélaga sem vilja vinna saman að því að bjóða viðskiptavinum sínum tengiflug með fleiri samstarfsaðilum. Við hlökkum til að geta miðlað þekkingu okkar á ferðageiranum og reynslu okkar af því að fjárfesta í Skyscanner og byggja upp ferðatæknifyrirtæki á heimsmælikvarða".

Dohop hyggst nýta fjármagnið til þess að byggja upp og ráða fólk með tækniþekkingu á Íslandi þar sem höfuðstöðvar félagsins verða áfram. Félagið hyggst auka hraðann á vöruþróun sinni ásamt því að fjölga viðskiptavinum og halda áfram að þróast til þess að leysa vandamál fluggeirans á nýstárlegan hátt.

SEP styður vöxt tæknifyrirtækja

Dohop er tæknifyrirtæki stofnað á Íslandi árið 2004 sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir tækni sína og vörur. Grunntækni Dohop snýst um að smíða tengiflug og hjálpa flugfélögum að selja tengiflug í félagi við önnur flugfélög. Dohop hefur þróað tækni fyrir flugfélög, flugvelli og samtök flugfélaga um allan heim á borð við easyJet, Transavia, Eurowings, Jetstar, Gatwick og SkyTeam.

SEP er einn af leiðandi vaxtarsjóðum í Evrópu og hefur í 20 ár hjálpað tæknifyrirtækjum að vaxa og dafna og ná markmiðum sínum. SEP leggur til fjármagn og sérþekkingu ásamt því að vinna með stjórnendum fyrirtækja sinna í því að hámarka vöxt og verðmæti. Sjóðurinn hefur einna helst fjárfest í tæknifyrirtækjum með sérstaka áherslu á hugbúnaðar- og internetfyrirtæki og er bakhjarl fjölmargra evrópskra fyrirtækja sem hafa náð langt á sínum sviðum.

Starfsfólk Dohop
Starfsfólk Dohop
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Starfsfólk Dohop.