Íslenski flugleitarvefurinn Dohop vann í nótt verðlaunin „World's Leading Flight Comparison Website“ á World Travel Awards. Var fyrirtækið þar valið fram yfir mun stærri fyrirtæki á borð við Kayak, sem bandaríski ferðarisinn Priceline keypti árið 2012 fyrir 1,8 milljarða dollara.

Verðlaunin voru afhent síðastliðna nótt á lokahátíð World Travel Awards sem að þessu sinni var haldin á karabísku eyjunni Anguilla. Enginn starfsmaður Dohop var á verðlaunahátíðinni en á móti þeim tók þýsk kona sem Dohop valdi sem fulltrúa sinn að undangenginni samkeppni .

„Þetta er auðvitað alveg frábær viðurkenning fyrir okkar vinnu og okkar starfsfólk hérna á Íslandi. Við vorum í flokki með ansi stórum fyrirtækjum sem eru mun betur þekkt erlendis þannig að þessi sigur kom okkur skemmtilega á óvart,“ segir Kristján Guðni Bjarnason, forstjóri Dohop.