*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 1. ágúst 2021 10:01

Of dökk mynd í hluta fjölmiðla

Ferðamálaráðherra segir að það eigi eftir að skýrast hvaða áhrif endurflokkun á sóttvarnakorti mun hafa.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, telur ekki að nýjustu sóttvarnaaðgerðir hafi haft stórvægileg áhrif á ferðaþjónustuna. Þau hafi vissulega verið einhver en fjarri því sem áður hafi verið. Það eigi hins vegar eftir að koma í ljós hvaða áhrif endurmat á sóttvarnakorti Evrópu, svokölluð litaflokkun, muni hafa. Ísland hefur þar verið grænt en verður líklega rautt á næsta korti.

„Það er vonandi að löndin í kringum okkur muni líta á fleiri mælikvarða en aðeins fjölda smita en það fer auðvitað eftir hlutfalli bólusettra í löndunum í kringum okkur,“ segir Þórdís Kolbrún. Flest bendir til þess að árangurinn af bólusetningum sé mikill, færri sýni einkenni og innlagnir séu aðeins brotabrot af því sem þær voru áður. Veruleikinn nú sé því allt annar en hann var.

„Með þeim fyrirvara að nýjar vendingar eða stökkbreytingar verði ekki í þróun veirunnar, þá sjáum við á öllum tölum að bólusetningin er bylting í baráttu við farsóttina. Við þurfum að nýta tímann nú til að svara því hvernig við ætlum raunverulega að lifa með veirunni. Ætlum við að fara í aðgerðir og takmarkanir fram og til baka endalaust eða ætlum við að þróa nýja mælistiku fyrir hvenær á að grípa til þeirra, það er annan en fjölda smita? Dagarnir nú veita mikilvæg svör sem við þurfum til að ákveða slíkt,“ segir Þórdís.

Að mati hennar er áhugavert að bera saman stöðuna í faraldrinum erlendis og hér heima. Í sumum ríkjum hafi verið gripið til aðgerða sem í raun íþyngi óbólusettum og hvetji fólk þar með til að fara í bólusetningu. Það hafi ekki þurft hér. Þá sé smitrakning hér enn öflug en víða hafi verið slakað á klónni annars staðar. „Ég velti stundum fyrir mér fréttaflutningi af stöðunni hér og í öðrum löndum. Sums staðar, þar sem staðan er jafnvel verri en hér, er lítið fjallað um veiruna en hérna eru allir miðlar fullir af fréttum af henni. Mér finnst við mega fara að spyrja okkur hvort fréttaflutningur, umræðan og spurningar um stöðuna séu í samræmi við þann raunveruleika sem blasir við okkur,“ segir Þórdís.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Covid-19