tir að Tryggvi Pálsson tilkynnti afsögn sína úr starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans í vor var ákveðið að ráðast í breytingar á skipuriti bankans. Sviðinu var skipt upp í tvö mismunandi svið, annars vegar greiðslukerfi og hins vegar fjármálastöðugleika. Nú hefur Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs sem m.a. gefur út skýrslu um stöðu fjármálamarkaðar á Íslandi tvisvar á ári. Fjármálastöðugleiki 2/2011 kemur einmitt út nú í lok nóvember. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sigríður hefur störf í bankanum en árin 1992, 1993 og 1995 starfaði hún þar sem sumarstarfsmaður.

Sigríður ætti að vera landsmönnum flestum að góðu kunn enda átti hún sæti í Rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Þar sat hún ásamt þeim Páli Hreinssyni hæstaréttardómara og Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis. Nefndin lauk sem kunnugt er störfum á síðasta ári þegar hún skilaði yfir tvö þúsund síðna skýrslu í fjölda binda.

Doktor frá Yale

Sigríður er eins og áður segir hagfræðingur að mennt en hún lauk B.S.-prófi í hagfræði árið 1995 og áratug síðar lauk hún doktorsnámi í faginu frá Yaleháskóla, einum þekktasta háskóla Bandaríkjanna, og bættist hún þá í hóp þekktra íslenskra hagfræðinga sem lokið hafa doktorsnámi frá Yale, meðal þeirra er Gylfi Magnússon, fyrrum viðskiptráðherra. Í millitíðinni lauk Sigríður reyndar B.S.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Hún hefur verið búsett og starfandi vestanhafs undanfarin ár og hefur m.a. starfað hjá Seðlabanka Bandaríkjanna árin 2005-2007 og frá árinu 2007 hefur hún kennt við Yale auk þess að vera aðstoðarmaður deildarforseta hagfræðideildar skólans. Þá hefur hún stundað rannsóknir í hagfræði samhliða þessum störfum sínum, einkum fjármálahagfræði og þá með áherslu á fjármálamarkaði.

Sigríður er eins og áður segir einnig tölvunarfræðingur að mennt en hún starfaði hjá Hugviti árin 1997-1998 sem verkefnisstjóri og ráðgjafi en auk þess á árunum 1995-1997 var hún starfsmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.