Menntamálaráðherra hefur veitt Háskólanum í Reykjavík heimild til að bjóða doktorsnám í viðskiptafræði og lögfræði. Í heimild ráðherra er vísað til laga um háskóla nr. 63/2006, en þar segir að ráðherra geti veitt slíka heimild sýni viðkomandi háskóli fram á að hann uppfylli viðeigandi kröfur og skilyrði um doktorsnám i háskólum segir í tilkynningu.

Þórður S. Gunnarsson, forseti lagadeildar HR, segir í tilkynningu að þessi heimild sé afar mikilvæga fyrir lagadeild HR. „Þetta kemur til með að styrkja allt vísindastarf við deildina verulega en frá stofnun hennar árið 2002 hefur mikil áhersla verði lögð á uppbyggingu rannsókna við deildina og virka þáttöku í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.”

Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, tekur í sama streng og segir þetta styrkja verulega rannsóknar- og fræðastarf við skólann. „Þetta er vitnisburður um það hvernig rannsóknir í viðskiptadeild HR hafa eflst á undanförnum árum. Deildin hefur á að skipa öflugu vísindafólki sem er virkt í alþjóðlegu fræðasamfélagi og hefur alla burði til að leiðbeina nemendum sem sækjast eftir doktorsgráðu á þeim sviðum sem deildin starfar."