Það er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð ef ætlunin er að færa alla heilsugæslu til einkaaðila, segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

„Eitt er að það mun flækja flutning þjónustu við aldraða til sveitarfélaga, því margt mælir með að heilsugæslan fylgi þar með. Annað er að almenna viðmiðið í sjúkratryggingalögunum er að forðast beri að setja alla þekkingu og reynslu til einkaaðila á einu bretti, því þá glatar ríkið samningsstöðu sinni til frambúðar og býður heim dólgakapítalisma,“ segir Árni Páll.

„Eins er óhjákvæmilegt að setja á fót sjálfstætt eftirlit með þjónustunni og styrkja Sjúkratryggingastofnun, ef ráðast á í aukin útboð þjónustu. Allt þetta voru atriði sem þáverandi sjálfstæðisráðherra taldi aukaatriði. Þótt sporin hræði skulum við gefa þeim nýja færi á að feta aðra braut," segir í greininni.