Ekkert lát virðist vera á lækkun á gengi Bandaríkjadollars gagnvart helstu myntum. Þá þróun má einna helst rekja til væntinga markaðsaðila um að peningastefna Seðlabanka Bandaríkjanna verði slakari þegar fram í sækir en peningastefna ýmissa annarra seðlabanka. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.

Á árinu hefur dollarinn veikst gagnvart evru um 13% og hefur ekki verið svo veikur frá því í byjrun desember 2009.

Þróunin hefur einnig haft áhrif á gengi dollars gagnvart krónu. Dollarinn kostar nú rúmar 11 krónur á millibankamarkaði og hefur ekki verið jafn ódýr í krónum talið síðan í byrjun nóvember. „Þess má geta að snemma á þessu árinu fór hann upp í rúmar 119 krónur og jafngildir þetta rúmlega 7% styrkingu krónunnar gagnvart honum á tímabilinu. Á hinn bóginn hefur evran orðið mun dýrari í krónum en hún kostar nú rúmar 165 krónur og hefur ekki verið jafn dýr síðan í byrjun maí í fyrra. Breska pundið er á tæpar 185 krónur sem er svipað og það hefur verið að undanförnu en þó mun dýrara en það var um síðustu áramót þegar það var á um 179 krónur,“ segir í Morgunkorni.