Dollarinn náði sögulega lágu gildi gagnvart evru í dag í kjölfar titrings á bandarískum húsnæðismarkaði og minnkandi væntinga neytenda. Markaðsaðilar reikna nú með því að Seðlabanki Bandaríkjanna lækki vexti enn frekar. Bloomberg segir frá þessu.

Dollarinn hefur ekki verið jafn veikur gagnvart evrunni frá 1999 þegar síðarnefndi gjaldmiðilinn var tekinn inn á gjaldeyrismarkaði. Dollarinn veiktist jafnframt gagnvart 16 helstu viðskiptamyntum heimsins. Veikasta gildi dollarans gagnvart evrunni í dag var 1,4985 dollar á evru, en við lokun markaða hafði það gengið lítillega til baka.

Donald Kohn, aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði að skjálfti á lánsfjármörkuðum og möguleikinn á miklum efnahagslegum samdrætti væru stærri hættur en verðbólguskot. Sérfræðingar telja að með þessum orðum hafi Kohn staðfest að áframhaldandi vaxtalækkana sé að vænta. Deutsche Bank, sem er umsvifamesti gjaldeyrisviðskiptabanki heims, reiknar með að dollarinn muni falla um 3.5% á næstu þremur mánuðum.