Gengi krónunnar hefur haldið áfram að hækka í morgun eftir miklar hækkanir síðustu daga segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Nemur hækkunin það sem af er degi 0,3% en í gær hækkaði krónan um 0,7%. Gengi krónunnar hefur nú hækkað um 2,5% frá því hækkunarhrina þessi hófst í upphafi síðustu viku. Ástæðu hækkunarinnar má rekja til ofangreindrar skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í krónum. Veltan á gjaldeyrismarkaði þennan tíma er búin að vera mikil eða 11,4 ma.kr. að meðaltali á dag. Mest var veltan í gær eða 21 ma.kr.

Dollarinn fór undir 61 krónu í morgun og hefur hann ekki verið undir því marki frá því í byrjun apríl síðastliðinn. Evran stendur í 76,6 krónum og sínu lægsta gildi frá lokum árs 2000. Pundið stendur í 112 krónum og mjög nálægt yfir lágmarki sínu gagnvart krónu í ríflega áratug sem það náði í lok mars á þessu ári. Gengisvísitalan stendur í 106,4 og er rétt við það sögulega lágmark sem vísitalan náði í mars á þessu ári en þá hafði gengi krónunnar ekki verið hærra frá því krónan var síðast lækkuð með handafli ríkisvaldsins 1993.