Verð á Bandaríkjadollara er komið yfir 120 krónur og hefur hann ekki verið dýrari síðan í ágúst 2016. Bandaríkjadollari var síðast undir 100 krónum í apríl á þessu ári en síðan þá hefur gengi hans styrkst um 20% gagnvart krónunni.

Það sem af er degi hefur krónan veikst um 0,89% gagnvart evru en gagnvart dollara hefur hún veikst um 1,53%. Meiri veikning gagnvart dollar en evru skýrist að mestu leyti af því að evran hefur veikst um rúmlega 0,6% gagnvart dollar það sem af er degi.  Frá áramótum hefur gengi krónunnar gagnvart dollara veikst um yfir 12% og um rúmlega 20% frá því það var sem lægst í lok mars.

Í gær greindi Viðskiptablaðið frá því að Seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn en inngripið nam um 9 milljónum evra eða sem samsvarar 1,2 milljörðum íslenskra króna.