Dollarinn lækkaði í dag gagnvart evru sjötta viðskiptadaginn í röð. Þetta gerðist í framhaldi af því að yfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í dag að sala á fasteignum hafi ekki verið lægri í 12 ár. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu í dag.

Þá segir Bloomberg að dollarinn hafi ekki ekki lækkað jafnhratt gagnvart evru síðan í apríl 2006. Uppþotin í Pakistan í kjölfar morðsins á Benazir Bhutto eru einnig talin hafa áhrif þar sem Pakistan er vinaþjóð Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum og átökin geti náð til nágrannaríkja Pakistan og valdið spennu á mörkuðum.

Á hádegi í New York hafði dollarinn fallið um 2,3% í þessari viku. Þá var gengi hans 1,4720 evrur. Þá kemur einnig fram að dollarinn hefur lækkað gagnvart 14 af 16 helstu gjaldmiðlum heims um leið og seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað stýrivexti þrisvar á árinu. Í dag eru stýrivextir 4,25%. Í dag féll dollarinn gagnvart öllum 16 helstu gjaldmiðlum að mexíkönskum pesó undanskildum.

Dollarinn hefur lækkað um 9,8% gagnvart evru á árinu og 4,5% gagnvar kínversku júan. Dollarinn hefur lækkað gagnvart evru á hverju ári frá árinu 2001 að 2005 undanskildu þegar hann hækkaði um 13%.

Svissneski frankinn hækkaði í dag gagnvart öllum 16 helstu gjaldmiðlum heims. Yfirmaður gjaldeyrissviðs Wells Fargo bankans segir í viðtali við Bloomberg að svissneski frankinn sé talinn með stöðugri gjaldmiðlum heims.

Svissneski frankinn hefur hækkað um 0,8% í dag gagnvart dollar og er gengið nú 1,1292 dollarar á svissneskan franka. Japanska jenið hefur einnig hækkað um 0,6% gagnvart dollar og er gengið nú 113,73 jen á dollar. Á þessu ári hefur dollarinn lækkað um 2,2% gagnvart svissneska frankanum og 0,9% gagnvart jeni.

Munu stýrivextir lækka?

Framvirkir vextir í Bandaríkjunum gefa til kynna að nú séu 94% líkur á vaxtalækkun á næsta vaxtaákvörðunarfundi seðlabankans þann 30. janúar. Í gær voru líkurnar 76% á sama mælikvarða. Miðgildi spár 42 hagfræðinga sem Bloomberg ræddi við segir að dollarinn verði kominn upp í 1,39 gagnvart evru í lok næsta árs. Sama könnun bendir hins vegar til að dollarinn veikist gagnvart jeni og verði í árslok kominn niður í 110 jen.